Mér er í mun að segja frá þeim sem skiptu um skapnað!

Ég hef nú í svolítinn tíma velt því fyrir mér hvort ég ætti ekki  hreinlega að loka þessari bloggsíðu minni þar sem innblástur jafnt sem áhugi hafa verið af skornum skammti. Einnig hefur mig skort tíma sökum anna, en mitt í þessum hugrenningum skoðaði ég hvað það var sem ég lagði upp með í upphafi og hvers vegna. Ég þurfti ekki annað en að ræða við minn dyggasta stuðningsmann til að sjá að þetta var röng ákvörðun og var mér stranglega bannað að hætta skrifum. Því hef ég ákveðið að halda áfram þar til annað kemur í ljós.

En hver voru aftur hugðarefni mín í upphafi. Jú ég ætlaði að fjalla um mínar helstu á-stríður í lífinu: nefninlega menningu/listir og íslenskt málfar. Tilgangurinn var sumsé sá að æfa ritfærni mína og tók ég það skýrt fram að ek myndi ekki ábyrgjast að allir pistlarnir yrðu hundrað prósent og algerlega villulausir. Að þeir yrðu á stundum nánast fullkomnir, svo fullkomnir að lesendur gætu átt það til að vökna um augun en á hinn bóginn gætu pistlarnir átt það til að verka sem draumkennt og óljóst pár ;). Þessu held ég að ég hafi nokkurn veginn náð en þó farið örlítið út af braut menninga og lista sem og minnar helstu á-stríðu, íslenskrar tungu. Því gef ég hátíðlegt loforð upp frá þessum degi að ef ég fer hlykkjótta leið mun ég láta niður skrif mín að eilífu.. amen. Þá mun þessi pistill enda á minningargrein og mun ég aldrei láta svo mikið sem staf koma frá mér á þessari helgu bloggsíðu.

En jæja, aftur að menningu. Á dögunum (18.09) hlýddi ég nefninlega á erindi Kristjáns Árnasonar, þýðanda, sem ég hafði beðið með eftirvæntingu. Eins og flestir vita þá þýddi Kristján hið mikla rit rómverska skáldsins Óvíðs: Metamorphoses eða Ummyndanir eins og Kristján kaus að kalla það í þýðingunni. Auðvitað lá sú þýðing beinast við þar sem þetta er bein þýðing og felur nákvæmlega í sér umfjöllunarefni bókarinnar. En fyrir þá sem ekki vita þá fjallar hún um tilurð heimsins á goðsögulegan hátt og er útskýring á myndun hinna ýmsu lífvera, planta o.s.frv. En nákvæmlega svona hljóðar upphaf bókarinnar: Mér er í mun að segja frá þeim sem skiptu um skapnað. Bókin skiptist í aragrúa af frásögnum sem eru hver annarri skemmtilegri og snilldarlega fléttaðar saman. Frásagnarhæfileiki Óvíds var einstakur sem gerir bókina afar gómsæta aflestrar en eins eru myndlíkingar og myndmál ríkjandi.

 Ein af mínum uppáhaldsfrásögnum innan ritsins er sú af Aröknu sem óf betur en nokkur önnur kona og fór í hálfgerða samkeppni við eina gyðjuna, Pallas Aþenu. Þær gerðu með sér veðmál nokkuð sem Arakna tapaði, því mannlegur máttur mátti sín einskis gegnt guðdómleika guðanna, og réði því Pallas Aþena örlögum Aröknu. Arakna hengdi sig og Pallas Aþena breytti henni í könguló. Þó að í því hafi legið refsing var dómurinn ögn mildari þar sem Arakna gat áfram spunnið vef sinn en hékk þó í snörunni, líkt og köngulær gera. Nafn hennar Arakna er jafnan notað sem fræðiheiti yfir köngulær og því er það mjög táknrænt fyrir söguna alla. Önnur frásögn er mér mjög að skapi en sú er um Ekkó og Narkissuss en mun ég ekki fjallar nánar um hana hér. Þið verðir einfaldlega að svala þorsta ykkar með lestri Ummyndana sem ég mæli eindregið með.

Það sem þó kom mér á óvart var hve lítið Kristján kom inn á þýðingarvinnuna sjálfa, heldur talaði hann meira um ritið sem slíkt. Rit Óvíðs. Þýðing Kristjáns er afburðar góð og því tengi ég þessa feimni á umfjöllun þýðingarvinnunnar fremur við hógværð hans en nokkuð annað. Eitt af því sem hann fjallaði þó um var hve erfitt var að gera einni frásagnanna skil en sú er um hjarðmenn er gættu vatnsbóls. Þeir tímdu ekki að gefa konu einni vatn að drekka en síðar kom í ljós að sú kona var Gyðja. Gyðjan breytti þeim því í froska í hegningarskyni eins og segir í frásögninni á frummálinu ... svo þeir gætu ætíð búið við vatnsbólið (eða á yfirborði þess), gætt þess en þó einungis étið upp orðin aqua, aqua. Aqua er latneska orðið yfir vatn en þó einnig þekkt í mörgum tungumálum sem það hljóð sem froskar gefa frá sér. Þetta skilar sér illa inn í íslenska menningu þar sem við höfum hvorki froska í okkar samfélagi né heldur nafn yfir það hljóð sem froskarnir gefa frá sér. Það sem við notum yfirleitt yfir hljóð froska er fengið að láni úr engilsaxnesku og er eftirfarandi: ribbit, ribbit. Kristján útskýrði þó því miður ekki hvernig hann snéri sér í þessu en það verður mitt næsta verk að fletta því upp. Síðan ætla ég að leggjast á bæn og vonast eftir því að í einum af jólapökkunum mínum muni leynast þetta stórmerkilega rit í heimsbókmenntum sem Óvidíus lagði lokahönd á 8 árum eftir Krist. Ekki missa af næsta pistli sem mun fjalla um fræði Lacans og rómantískar bókmenntir. Þar til næst XXX


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Legg til að næsti pistill verði sendur á hið merka vefrit Vinkil.....

Okkur þyrstir í pistil um fræði Lacans og rómanstískar bókmenntir

Ellen (IP-tala skráð) 31.10.2010 kl. 16:31

2 Smámynd: María Ólöf Sigurðardóttir

Jú það verður fljótlega. Hittir öruglega á vel í kramið hjá glöðum markhópi. Ert þú annars að skríða saman ljúfan?

María Ólöf Sigurðardóttir, 1.11.2010 kl. 23:40

3 identicon

Held það nú, og í tilefni þess ætla ég að skella mér með ástmanni mínum á nýjustu Woddy Allen myndina í kveld....

Ellen (IP-tala skráð) 5.11.2010 kl. 13:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband