Samskipti eru ekki mannleg

Mig langar að segja ykkur svolítið um mannleg samskipti. Ekki vegna þess að ég er sérfræðingur í þeim heldur vegna þess að ég tel mig geta afsannað þá kenningu að samskipti séu mannleg. Jamm, þar hafið þið það. Samskipti eru ekki mannleg. Því segi ég það? Jú, sko hvaða frekja er það í manninum að halda að hann eigi einhvern einkarétt á samskiptum ... eins og hann hafi hreinlega fundið upp samskipti ... að hann sé klárari en allar aðrar dýrategundir og þar af leiðandi ... hinn viti borni ... hin vitræna skepna ... sú sem er æðri öllum öðrum dýrategundum ... homo sapiens ... bla bla bla og sé þar af leiðandi mestur og bestur í því að eiga samskipti ... mannleg samskipti. Maðurinn hefur því eignað sér samskipti og kallar þau mannleg samskipti og trúir því statt og stöðugt að hans samskiptamáti sé æðri samskiptmáta annarra tegunda.

En um hvað fjalla mannleg samskipti? Hvað felur orðið í sér ... SAMSKIPTI! Maðurinn tjáir sig við annan mann með þeim tjáningarmáta sem er viðeigandi hverju sinni. Hann skiptist á orðum, hugsunum, augnatilliti, líkamsbendingum, líkamsmeiðingum o.s.frv. en oftar en ekki flækist það ferli fyrir honum. Þegar tvær manneskjur skiptast t.a.m. á orðum getur annarri þeirra reynst ansi erfitt að bíða þar til að henni kemur. Þá á hún það oftar en ekki til að grípa fram í fyrir hinni og truflar þar af leiðandi samskiptin. Rof myndast á samskiptum sem gerir það að verkum að ekki er lengur um samskipti að ræða heldur sam skipti ... eða jafnvel bara sam ... eða bara skipti. Í dýraríkinu ganga þessi samskipti yfirleitt snuðrulaust fyrir sig, ja, eða enda með því að annað dýrið drepur hitt, en samskipti dýranna fjalla að mestu leyti um að grundvallarþörfum þeirra sé fullnægt, þ.e. fæðuöflun og mökun. Einnig vara dýrin hvert annað við ef hætta er á ferðum, eitthvað sem maðurinn mætti taka sér til fyrirmyndar, og hjálpast gjarnan að við að búa sér og öðrum (sinnar tegundar) heimili, byggja stíflur, hreiður o.s.frv. Samskipti dýranna eru því í eðli sínu einföld enda er ekki verið að flækja þau um of.

Dýrin grípa ekki fram í hvert fyrir öðru eða taka fram fyrir hendurnar hvert á öðru og þykjast vera betri en t.d. næsti Bifur (Bjór) í stíflugerð. Þau fara ekki í standpínukeppni um það hver gerði öflugri stíflu, þykkara og harðgerðara hreiður eða á stærri helli eða hefur aflað meiri fæðu fyrir veturinn. Dýrin þurfa heldur engar leiðbeiningar þegar um er að ræða fæðuöflun, mökun, hreiðurgerð eða önnur öryggisatriði því þau vita alltaf hvað á til bragðs að taka í hvaða aðstæðum sem er. Maðurinn hefur hins vegar hannað aragrúa af sjálfshjálparbókum og bæklingum sem fjalla um flest þessara atriða og hvernig á að bregðast við ef vandi kemur upp varðandi eitthvað þeirra. Hann hefur komið því þannig fyrir að hann getur leitað ráða hist og her hjá; geðlæknum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, læknum, prestum og kynlífsráðgjöfum; svo fátt eitt sé nefnt en lendir þó oftar en ekki í vandræðum þrátt fyrir allar þær leiðir sem eru í boði. Kannski vegna þess að hann er ekki jafn viti borinn og hann heldur fram að hann sé.

Maðurinn er stöðugt að særa og láta særa sig, svíkja og láta svíkja sig, blandar tilfinningum sínum gjarnan saman við fæðuöflun, mökun, öryggi o.s.frv. í stað þess að gera þetta bara og hugsa ekki um það meir. Hrafninn er t.d. einn þeirra fugla sem maðurinn gæti tekið sér til fyrirmyndar þegar kemur að makaleit en hann velur sér einn maka sem er hans lífsförunautur þar til dauðinn aðskilur þá. Ef maki hans fellur frá þá velur hann að flögra einn um allt til æviloka og sýnir maka sínum því þá virðingu sem hann á skilið. Hrafninn fer ekki fram á skilnað ef honum líkar ekki nógu og vel við eitthvað í fari maka síns og hann heldur ekki heldur framhjá. Manneskjan á hinn bóginn flögrar um með hinum og þessum og velur sér maka eftir hentisemi, skilar honum ef henni líkar ekki lengur nógu og vel við hana og allt þar fram eftir götunum. Býflugurnar hjálpast að við fæðuöflun og skiptast á að leita að hunangi. Þær slást ekki um hunangsgljáða skinku í kælinum í Bónus því það er síðasta skinkan sem var á útsölu þann daginn og þær drulla ekki yfir búið (sbr. kassadömuna) yfir verði á hunangi þann daginn.

Ég sagðist ætla að færa rök fyrir því að samskipti væru mannleg og trúi að ég hafi gert það eftir bestu getu. Menn/konur tökum dýrin okkur til fyrirmyndar og hættum að slást, rífast, grípa frammí hvert fyrir öðru, þurfa alltaf að eiga síðasta orðið, særa, meiða, ljúga, stela, pretta, svíkja og allt þetta vonda. Ef við viljum virðingu hugsum þá til hrafnsins sem flögrar um í alsælu, trúr og tryggur, býflugunnar sem hugsar um heildina en ekki aðeins eigið skinn, kettina, hundana, kýrnar, ærnar og alla hina. Verum öll vinir því það er hið vitræna í stöðunni. Over and out! ;)


Táp og fjör og frískir menn!

Er ekki kominn tími á svolítið blogg? ... allavega þá er allt á fullu í sveitinni, rjúkandi bananabrauð að koma út úr ofninum, unglingarnir á fullu einn í Vestmannaeyjum annar á fótboltaæfingu og hinn að sinna útiverkunum (brynna hestunum, vökva kartöflugarðinn og rabbabarann). Sú gamla er orðin vinnualki, er að vinna á fullu uppi á flugvelli og var að leggja lokahönd á BA-verkefni mitt frá ritlistinni í HÍ. Nú þarf ég að vinna af mér frívakt sem ég tók um daginn, tók og ekki tók, og vinn í heila viku straight, ásamt því að vera að skila af mér lokaverkefninu sem er hvorki meira né minna en leikrit í fullri lengd og gengur undir nafninu Ergelsi. Það er því skiljanlega svolítið ergelsi í þeirri gömlu með öll þessi verkefni á bakinu. En það þýðir ekkert annað en að halda áfram og brosa í gegnum allt saman ;). Nú er haustið líka í loftinu og rútína fer að komast á allt saman, elsti drengurinn heldur í framhaldsnám, gamla settið heldur áfram sínu námi og mun ég þá að vori ljúka seinni BA-gráðunni í íslensku og bókmenntum. Yngri unglingarnir fara í 9. og 7. bekk og verður nóg að gera á námsvæddu heimili. Nú svolítið um menningu: þá hef ég verið að lesa svolítið í sumar og var að ljúka við bækurnar Z-ástarsaga eftir Vigdísi Grímsdóttur, og Konur eftir Steinar Braga. Z-ástarsaga er öðruvísi ástarsaga mjög fallega skrifuð en full dramatísk enda kannski ekki annað hægt þar sem ein af aðalpersónum verksins er mikið veik. Konur er frekar súrrealísk saga sem fjallar um Evu sem er í andlegri krísu, hún flytur til Íslands til að koma lagi á líf sitt en þá fara undarlegir hlutir að gerast. Konur er hálfgerð hrollvekja en skemmtilega skrifuð enda ekki við öðru að búast frá Steinari Braga. Nú bókin sem er á náttborðinu í augnablikinu er bókin Gunnlaðar saga eftir Svövu Jakobsdóttur ásamt Arsenikturninum sem ég týndi snemma sumars og fann undir sökklinum á rúminu ;) en hún hefur dottið alla leið þangað eitthvert skiptið sem ég skipti á rúminu og ég hef ekki tekið eftir því fyrr en nú nýlega. Þá er bara að ljúka við Gunnlaðar sögu og halda áfram með Arsenikturninn þar sem frá var horfið. Ég mun síðan gefa fulla skýrslu um þessar tvær bækur í næsta bloggi og verð ég kannski byrjuð á bókunum þremur sem ég leigði í dag: Stúlka eftir Mikael Torfason, Dyrnar þröngu eftir Kristínu Ómarsdóttur og Skaparinn eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Jæja þá ætla ég að láta þetta gott heita í bili ... þar til næst ... luv luv luv.


Mikill meirihluti??

Svolítið um málfar og/eða misnotkun á okkar fagra tungumáli íslenskunni sem ætti að vera eitt af okkar best varðveittu gersemum. Við urðum ekki sjálfstæð þjóð á sínum tíma af því að við vorum svo déskoti sniðug að pissa í koppa eða byggðum svo fallega torfbæi. Nei aðalorsök þess að við urðum á sínum tíma sjálfstæð þjóð var nefninlega vegna þeirrar gersemar sem íslensk tunga er, hið upprunalega tungumál.

Ja hérna hér,

er ekki kominn tími til að við ritstörf starfi fólk sem kann að koma frá sér texta. Er metnaðurinn enginn. Ég man þá daga er fólk var ekki ráðið í útvarpið nema með því skilyrði að það talaði með norðlenskum hreim og fallega og vandaða íslensku, sem er eiginlega einn og sami hluturinn. Í þá daga hefði slíkur hálfkæringur við ritstörf ekki verið leyfilegur. Mikill meirihluti, af hverju er ekki hægt að segja meirihluti Íslendinga. Þarna er orðinu mikill ofaukið þar sem það er hrein endurtekning á meirihluta. Það sem kemur mér þó mest á óvart er að enginn hafi bent á þetta þar sem a.m.k. fjórir aðilar hafa bloggað um fréttina.    Og hananú


mbl.is Mikill meirihluti hlynntur mótmælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér er í mun að segja frá þeim sem skiptu um skapnað!

Ég hef nú í svolítinn tíma velt því fyrir mér hvort ég ætti ekki  hreinlega að loka þessari bloggsíðu minni þar sem innblástur jafnt sem áhugi hafa verið af skornum skammti. Einnig hefur mig skort tíma sökum anna, en mitt í þessum hugrenningum skoðaði ég hvað það var sem ég lagði upp með í upphafi og hvers vegna. Ég þurfti ekki annað en að ræða við minn dyggasta stuðningsmann til að sjá að þetta var röng ákvörðun og var mér stranglega bannað að hætta skrifum. Því hef ég ákveðið að halda áfram þar til annað kemur í ljós.

En hver voru aftur hugðarefni mín í upphafi. Jú ég ætlaði að fjalla um mínar helstu á-stríður í lífinu: nefninlega menningu/listir og íslenskt málfar. Tilgangurinn var sumsé sá að æfa ritfærni mína og tók ég það skýrt fram að ek myndi ekki ábyrgjast að allir pistlarnir yrðu hundrað prósent og algerlega villulausir. Að þeir yrðu á stundum nánast fullkomnir, svo fullkomnir að lesendur gætu átt það til að vökna um augun en á hinn bóginn gætu pistlarnir átt það til að verka sem draumkennt og óljóst pár ;). Þessu held ég að ég hafi nokkurn veginn náð en þó farið örlítið út af braut menninga og lista sem og minnar helstu á-stríðu, íslenskrar tungu. Því gef ég hátíðlegt loforð upp frá þessum degi að ef ég fer hlykkjótta leið mun ég láta niður skrif mín að eilífu.. amen. Þá mun þessi pistill enda á minningargrein og mun ég aldrei láta svo mikið sem staf koma frá mér á þessari helgu bloggsíðu.

En jæja, aftur að menningu. Á dögunum (18.09) hlýddi ég nefninlega á erindi Kristjáns Árnasonar, þýðanda, sem ég hafði beðið með eftirvæntingu. Eins og flestir vita þá þýddi Kristján hið mikla rit rómverska skáldsins Óvíðs: Metamorphoses eða Ummyndanir eins og Kristján kaus að kalla það í þýðingunni. Auðvitað lá sú þýðing beinast við þar sem þetta er bein þýðing og felur nákvæmlega í sér umfjöllunarefni bókarinnar. En fyrir þá sem ekki vita þá fjallar hún um tilurð heimsins á goðsögulegan hátt og er útskýring á myndun hinna ýmsu lífvera, planta o.s.frv. En nákvæmlega svona hljóðar upphaf bókarinnar: Mér er í mun að segja frá þeim sem skiptu um skapnað. Bókin skiptist í aragrúa af frásögnum sem eru hver annarri skemmtilegri og snilldarlega fléttaðar saman. Frásagnarhæfileiki Óvíds var einstakur sem gerir bókina afar gómsæta aflestrar en eins eru myndlíkingar og myndmál ríkjandi.

 Ein af mínum uppáhaldsfrásögnum innan ritsins er sú af Aröknu sem óf betur en nokkur önnur kona og fór í hálfgerða samkeppni við eina gyðjuna, Pallas Aþenu. Þær gerðu með sér veðmál nokkuð sem Arakna tapaði, því mannlegur máttur mátti sín einskis gegnt guðdómleika guðanna, og réði því Pallas Aþena örlögum Aröknu. Arakna hengdi sig og Pallas Aþena breytti henni í könguló. Þó að í því hafi legið refsing var dómurinn ögn mildari þar sem Arakna gat áfram spunnið vef sinn en hékk þó í snörunni, líkt og köngulær gera. Nafn hennar Arakna er jafnan notað sem fræðiheiti yfir köngulær og því er það mjög táknrænt fyrir söguna alla. Önnur frásögn er mér mjög að skapi en sú er um Ekkó og Narkissuss en mun ég ekki fjallar nánar um hana hér. Þið verðir einfaldlega að svala þorsta ykkar með lestri Ummyndana sem ég mæli eindregið með.

Það sem þó kom mér á óvart var hve lítið Kristján kom inn á þýðingarvinnuna sjálfa, heldur talaði hann meira um ritið sem slíkt. Rit Óvíðs. Þýðing Kristjáns er afburðar góð og því tengi ég þessa feimni á umfjöllun þýðingarvinnunnar fremur við hógværð hans en nokkuð annað. Eitt af því sem hann fjallaði þó um var hve erfitt var að gera einni frásagnanna skil en sú er um hjarðmenn er gættu vatnsbóls. Þeir tímdu ekki að gefa konu einni vatn að drekka en síðar kom í ljós að sú kona var Gyðja. Gyðjan breytti þeim því í froska í hegningarskyni eins og segir í frásögninni á frummálinu ... svo þeir gætu ætíð búið við vatnsbólið (eða á yfirborði þess), gætt þess en þó einungis étið upp orðin aqua, aqua. Aqua er latneska orðið yfir vatn en þó einnig þekkt í mörgum tungumálum sem það hljóð sem froskar gefa frá sér. Þetta skilar sér illa inn í íslenska menningu þar sem við höfum hvorki froska í okkar samfélagi né heldur nafn yfir það hljóð sem froskarnir gefa frá sér. Það sem við notum yfirleitt yfir hljóð froska er fengið að láni úr engilsaxnesku og er eftirfarandi: ribbit, ribbit. Kristján útskýrði þó því miður ekki hvernig hann snéri sér í þessu en það verður mitt næsta verk að fletta því upp. Síðan ætla ég að leggjast á bæn og vonast eftir því að í einum af jólapökkunum mínum muni leynast þetta stórmerkilega rit í heimsbókmenntum sem Óvidíus lagði lokahönd á 8 árum eftir Krist. Ekki missa af næsta pistli sem mun fjalla um fræði Lacans og rómantískar bókmenntir. Þar til næst XXX


Dont hate the player, hate the game!

Martin Luther var ansi skondinn karl. Þá er ég ekki að tala um konunginn heldur guðfræðinginn og þýðandann þann sem var fyrstur til að þýða Biblíuna í heild sinni af grísku yfir á þýsku. Ég las á dögunum bréf sem hann skrifaði sér til varnar er Biblíuþýðing hans var gagnrýnd og hann spurður út í hvers vegna hann hafi ekki þýtt hana orðrétt og hvernig stæði á því að hann hafi valið ákveðið orðalag o.s.frv. Það er nefninlega málið. Fólk þykist alltaf vita betur. Svar hans var í stuttu máli: "Ef ykkur líkar ekki þýðingin, þá þurfið þið ekkert að lesa hana." Hehe, en hann vandaði þeim ekki kveðjuna sem reyndu að finna að þýðingum hans. Það mætti svo sem segja að hann hafi verið frekar þröngsýnn og eins að hann hafi ekki tekið gagnrýni mjög vel. Samt er þetta svo fyndið því maðurinn hafði unnið mikið við þýðingar, var guðfræðingur og án efa einna best fallinn til verksins. Hvað er þetta með fólk að þykjast alltaf geta gert hlutina betur en sá sem hefur annað hvort starfað lengi á sínu sviði eða er hámenntaður í faginu. Iðulega heyrum við, t.d. í tengslum við fótbolta, setningar á borð við: hvað var hann að hugsa eða hvernig gat hann brennt af þvílíku dauðafæri eða álíka fáránlegar athugasemdir frá áhorfendum sem ekki geta sett sig í spor þeirra sem eru inni á vellinum. Allir þykjast geta gert betur. Þá segi ég já af hverju er sá hinn sami þá ekki inni á vellinum. Dont hate the player hate the game. Eða eins og Martin Luther hefði sagt: ef þér líkar ekki leikurinn, þá þarftu ekkert að horfa á hann. Hver er þá lexía dagsins? Umm, því erum við að setja okkur á háan hest ef við höfum ekki vit á því sem við erum að tala um?

Lifðu og leyfðu öðrum.. örlítið um lífsspeki

Rétt fyrir skemmstu rakst ég á snilldar "mottó" sem ég væri alveg til í að gera að mínu lífsmottói. Þannig er mál með vexti að við erum öll með einhverja frasa sem við þyljum upp í gríð og erg í von um að þeir verði að okkar eigin viðhorfum. Stundum enda þeir með að verða orðin tóm og hafa þar af leiðandi enga dýpri þýðingu fyrir okkur. Það þýðir svo sem ekkert annað en að við gleymum því að við ætluðum að hafa opinn huga eða vera jákvæðari eða svona og hinsegin en löngunin getur þó enn verið til staðar. Mörg af þeim lífsviðhorfum eða frösum sem mér hefur löngum fundist umhugsunarverð eru á borð við:

"Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig," lifðu og njóttu, einn dag í einu, jákvæðni og auðmýkt er leiðin til framfara, ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna þína í dag, hefurðu ekki heilsu fyrir tímann þinn á morgun, lifðu og leyfðu öðrum að lifa og svona speki eins og að óeigingjörn ást sé fólgin í því hvernig fólkinu sem maður elskar líður í kringum mann. Allt í lagi, sumir flækja þetta alls ekkert fyrir sér og líða í gegnum lífið á bleiku skýi og reynist bara mjög auðvelt að uppfylla þessi gullkorn/lífsviðhorf. Aðrir eiga ívið erfiðara með það og þurfa jafnvel að hafa svolítið fyrir því og síðan eru það enn aðrir sem stöðugt eru með vindinn í fangið að berjast á móti straumnum og vinna aldrei neinn sigur nema kannski sýndarsigur. Sigur sem leiðir til gremju, og biturðar og skilur þá eftir sára og reiða og trúlega glymja þá setningar á borð við þær að ofan í höfðinu á þeim.

Ég hugsa að ég geti fundið mig í öllum þessum lýsingum hér að ofan og ætla að vera óhrædd við að viðurkenna það. Ég t.d. kem alls ekki alltaf fram við aðra eins og ég myndi vilja að þeir kæmu fram við mig. Ég á það t.d. til að mæta of seint eitthvert sem ég hef boðað mig en gæti átt það til að setja mig á háan hest ef ég yrði síðan sjálf fyrir því að tekið væri af mínum tíma. Ég er ekki alltaf jákvæð og auðmjúk og nýt ekki alltaf hvers dags fyrir sig. Ég hef ekki alltaf tíma fyrir heilsu mína og fólki líður ekki alltaf vel í kringum mig. En þýðir það að ég sé ekki tilbúin til að láta fólki líða vel eða að fullyrða eitthvað af þessum skilyrðum til lífshamingju? Nei, það þýðir einungis að ég sé mannleg og geri mistök eins og allir aðrir. Aðalmálið er síðan hvort ég ætli mér að læra eitthvað af þessum mistökum eða synda áfram í feni fávisku og fordóma þar til ég drukkna í því.

Yfirleitt er síðan dimmast undir dögun segir enn önnur lífsspekin sem er svo satt því yfirleitt erum við ekki tilbúin að sjá mistök okkar eða bresti fyrr en þau hafa farið með okkur í gönur. Þá kemur enn ein lífsspekin hinni til bjargar en sú er: "Svo lengi lærir sem lifir" og þegar birt hefur til erum við yfirleitt tilbúin til að sjá að okkur, viðurkenna mistök okkar og bæta fyrir þau eftir fremsta megni. Hér kemur síðan sú lífsspeki sem ég væri svo sannarlega til í að gera að minni: "Hamingjan er ekki fólgin í því að gera einungis það sem okkur finnst gaman að gera heldur að hafa gaman af því sem við gerum." Ég tel mig stundum ná því að hafa þetta að leiðarljósi en alls ekki alltaf. Enda getur enginn verið hamingjusamur og glaður, fullur af áhuga og jákvæðni alltaf. Þetta er svona lífsspeki sem ég er reiðubúin til að leggja mig alla fram við að muna, skella henni á ísskápinn, spegilinn inni á baðherbergi, setja hana í reminder í símann minn og hirst og her svo að það sé öruggt að ég gleymi henni ekki.

Næst þegar ég t.d. þarf að vinna inni, fullgölluð á sólríkum sumardegi get ég hugsað hey! að minnsta kosti hef ég vinnu, næst þegar ég þarf að takast á við frekjukast í öðrum syni mínum eða díla við einhverja erfiðleika, hey að minnsta kosti er ég hér til að takast á við þá og geri það eftir fremsta megni. Ég á tvo heilbrigða drengi sem mér þykir vænt um og þeim þykir yfirleitt vænt um móður sína svo að þetta lítur ekki svo illa út. Eða næst þegar ég vaska upp, (sem mér finnst by the way leiðinlegt) get ég hugsað hey ég fæ tækifæri til að þrífa í kringum mig (mér líður alltaf vel þegar það er hreint í kringum mig), ég hef tvær hendur til að gera það og get notið útsýnisins út um eldhúsgluggan í friði og ró (sem er by the way það fallegasta sem um getur). Í þessum skrifuðu orðum ætla ég að fara og upplifa hamingjuna í jafn hversdagslegri athöfn eins og að sinna uppvaskinu, því ég á jú fallegasta útsýni veraldar ;)


Fýla borgar sig..

Héðan í frá hef ég ákveðið að vera fúl og kaldhæðin.

Ég las frétt á dögunum sem fjallaði um rannsókn sem var gerð á tengslum milli fúllyndra og þrasgjarnra manna/kvenna og þess hvernig þau spjöruðu sig í lífinu. Einnig var fjallað um glaðlynt fólk og það hvernig það myndi fremur láta gabbast af hinu og þessu, þar á meðal sölufólki o.s.frv. Hinir fúllyndu efast gjarnan um ásetning fólks og láta því yfirleitt ekki narra sig út í einhverja vitleysu. Sem sagt hafa gagnrýna hugsun. Flott hugsaði ég því ég hef upplifað mig upp á síðkastið sem hálfgerðan tuðara og þrasgjarna en hey allavega er ég ekki svo vitlaus að láta gabba mig í einhverja þvælu hehe. Svo verum fúl á móti... Fúlar kveðjur til allra lesenda og takið þið til eftir ykkur ... hehe.


Eitt andartak er auðnuspor með þér...

Ég veit ekkert dásamlegra en lífið einmitt eins og ég þekki það í dag. Í morgun t.d. vaknaði ég við fuglasöng um áttaleytið (alveg sjálf án vekjaraklukku) hentist fram úr rúminu, lagaði rjúkandi kaffi nýflutt inn af ekrum Brasilíu, horfði út á spegilsléttan sjóinn og settist niður með Minnisbók Sigurðar Pálssonar. Ég hafði ekki lesið lengi þegar það helltist yfir mig svakalegt þakklæti. Þakklæti yfir því að hafa lokið prófunum og að vera komin með allar einkunnir, að vera þar af leiðandi ekki í kvíða yfir því hvort ég náði eða ekki. Ég fylltist þakklæti yfir því að hafa náð öllum prófunum og þakklæti fyrir litlu sætu fjölskylduna mína sem hefur staðið á hliðarlínunni allan tímann, þolinmóðir og dyggir stuðningsmenn sem samglöddust mér þegar þessum hrikalega tíma var lokið.

Einnig fylltist ég þakklæti yfir því að vera komin með vinnu í sumar og áföngunum sem ég tek næsta ár í skólanum (þeir eru svakalega áhugaverðir, en eitt skref í einu), ég fylltist þakklæti við lesturinn því þessi ótrúlegi maður hefur haft afdrifarík áhrif á ákvörðun mína námslega séð. Hann er ein af þessum manneskjum sem hefur virkilega unun af því sem hann gerir og talar um það svo töfrandi að allir sem ekki fást við það sem hann fæst við gætu hæglega efast um að þeir hafi tekið rétta stefnu í lífinu. Lesturinn kippti mér örlítið aftur til æskuáranna og minntu mig á lífið í sveitinni þar sem ég sat heilu og hálfu dagana við skrif. Skrif ljóða og smásagna aðallega en strax þá var ég farin að leika mér með formið.

Eins þaut framhjá mér, þar sem ég sat í eldhúsinu með bók Sigurðar mér í hönd, eitt augnablik frá dögum mínum í sveitinni. Þetta var á björtum vordegi og litla frænka mín var hjá mér oft sem áður. Ég man nákvæmlega hvar við stóðum, fyrir framan útihúsin fyrir neðan heimili mitt og hún kallaði nafn mitt: "Maija" sagði hún. Ég var um tíu ára þegar þessi litli ljósgeisli fæddist og vissi strax á þeirri stundu að hún ætti eftir að hafa afdrifarík áhrif á líf mitt. Þarna, þar sem við stóðum, var ég rúmlega tólf ára gömul að verða þrettán og hún u.þ.b. tveggja ára. Eins skrítið og það getur virst þá held ég að ég hafi í fyrsta sinn upplifað eitthvað sem líktist móðurtilfinningu á fyrstu árum hennar. Ég elskaði að fá að passa hana og eyða tíma með henni og móðir hennar sagði mér einhverju sinni að eitt af fyrstu orðum hennar hafi verið einmitt þetta: "Maija." Sennilega hefur hún aðeins viljað gleðja mig en þó kallaði litla hnátan flesta þessu nafni. Þarna þar sem við stóðum fór ég að velta fyrir mér áherslum hennar er hún bar fram nafnið, hljóðfræðinni sem einnig hefur verið mér hugleikin frá því að ég uppgötvaði tilvist hennar. Á þessum tíma vissi ég ekki að til væri orð yfir þetta fyrirbæri en þó var það mér mjög hugleikið. Ég gleymi ekki gleðinni þegar ég uppgötvaði að hún var í rauninni að reyna að segja e-rrið í nafninu mínu en ekki bara að stytta sér leið, Mæja. Einhvern veginn endaði það samt alltaf svona hjá henni: "Maija." Einhverjum gæti virst þetta fremur sjálfhverfar hugsanir hjá barni á þessum aldri en í rauninni var ég aðeins svakalega glöð yfir þessu þroskaferli hennar.

Skrítið hvernig nokkur orð eða ein setning getur dregið okkur mörg ár aftur í tímann jafnvel áratugi. Þarna sat ég í eldhúsinu heima hjá mér og hugsaði um þetta augnablik en einnig um þakklætið. Þakklætið yfir því hvar ég er í dag og allt það fólk sem hefur snert líf mitt á leiðinni þangað. Sum augnablik lifa eftir í minninu á meðan önnur gleymast. Hvað vitum við eiginlega um það hvaða áhrif augnablikssamræður hafa á manneskju sem við kynnumst á örskotsstundu en hverfur út úr lífi okkar jafn skjótt og hún kom inn í það. Sigurður minntist á samræður sem hann átti við konu í lest á leiðinni frá París til Toulouse. Sennilega man þessi samferðarkona Sigurðar ekki jafnglöggt eftir samræðunum við hann en fyrir honum var þetta töfrandi augnablik. Töfrandi þar sem hann var á leiðinni út í lífið á vit drauma sinna. Þetta augnablik tók hann aftur til æskuáranna líkt og það gerði fyrir mig sem lesanda. Lesanda á leið sinni út í lífið á vit drauma sinna...

  


Verið hress, ekkert stress, bless bless.

Jæja þá er ég loksins vöknuð af værum bloggblundi. Fyrir tveimur dögum síðan þreytti ég seinasta próf annarinnar og annað deginum þar á undan. Ég get ekki lýst gleðinni sem bjó í hjarta mér er ég sveif út úr kennslustofunni (síðust að vanda) og þess vegna ætla ég ekki að gera það ;). Úff þvílíkur léttir!! Þriðja einkunnin kom síðan í hús í dag og varla langt að bíða þeirrar fjórðu og seinustu. Allar eru þær ásættanlegar svo ég get ekki annað en verið glöð.

Framhaldið hjá mér er því: gleði, gleði, gleði, gleði líf mitt er. Sól og sumarylur, sjóböð og skemmtanir í faðmi fjölskyldu og vina ;). Hvað hljómar betur. Því  hófum við familían gleðina í gær á hefðbundinn hátt og skunduðum inn í Hafnafjörð að horfa á eldri soninn keppa í knattspyrnu. Hann tók sig sérlega vel út í grænu og auðvitað á vellinum líka. Kæró missti sig aðeins í stoltinu og smellti látlaust af kappanum, að ég held fimmhundruð áttatíu og sjö myndum, með sérstöku íþróttalinsunni sinni og þegar heim var komið voru þær allar skoðaðar gaumgæfilega og lagaðar til, lýsing og annað sem ég kann engin skil á. Síðan hafa gestir og gangandi fengið að sjá myndirnar, hvort sem þeir kæra sig um eða ekki, en þetta er náttúrulega svakalega flottur drengur og við alveg að springa úr stolti. Við tókum einn lítinn frænda með okkur á leikinn, Brynjar Loga sem er fjögurra ára og hrópaði hann úr sér lungum og lifur: "Áfram jarvik og áfram Hannes," nánast látlaust! Ég varð meira að segja að minna hann á að stoppa til að anda inn á milli ;). Ég skelli síðan kannski inn eins og nokkrum myndum síðar til að leyfa þeim að sjá sem sluppu héðan án þess.

Nú rétt áður en við fórum á leikinn hringdi síminn minn, sem var svo svakalega tillitsamur að þegja á meðan ég var í próflestrinum, frábær tegund ég mæli með henni: Sony Ericson. Þó held ég að það sé símfyrirtækinu að þakka, er með einhverja sérstaka stillingu próflent. Haha fattið þið: silent, próflent. Jæja anywho ef þið viljið vita hver hringdi þá var það systir mín, sem annars hringir aldrei... og á hinni línunni hljómaði fögur, mjóróma rödd sem sagði (svona með fimm ára grunntíðni): "Mæja! Ertu búin í prófum? Já!" svara ég (alveg eins og hálfviti) "jeijj má ég þá koma og gista hjá þér." Hehehe svo að nú sefur lítill fjögurra ára gutti uppi á lofti hjá frænkum sínum og frændum sæll og glaður en dauðuppgefinn eftir langa gönguferð og sjóræningjaleik í fjörunni.

Hann var nú varla fyrr komin hingað samt áður en hann reyndi að erfa upp á mig einhverja flatböku sem ég hafði einhvern tímann lofað honum og já gerðist síðan svo bíræfinn að reyna að telja mig inná að lofa sér að gista í tvær nætur. Þessi börn þau geta verið svo útsmogin. Eða þá að hann kann bara inn á frænku sína ;). Í lokin vil ég skilja ykkur eftir með eina gamla fræga tilvitnun sem á sínum tíma olli mér talsverðum heilabrotum: "Verið þið hress, ekkert stress, bless bless (Hermann Gunnarsson). Þar til næst Marja Sig 


Samsæriskenningar (seytjánda taka)

Ég get svo svarið það, ég hef reynt og reynt að setja hér inn samsæriskenningar eða öllu heldur uppgötvanir mínar um Pýþagóras og aa-samtökin án nokkurs árangurs. Ég hef nú þegar skrifað tvo fremur langa pistla sem detta jafnóðum út. Í síðara skiptið setti ég pistilinn á annað blað í word-inu og ætlaði að skeyta honum hér á en þá virkar það ekki. Internet explorer lokast alltaf og grípur með sér allar upplýsingar í leiðinni og firefox vill ekki leyfa mér að afrita og líma textann. Ég held að þetta sé eitt allsherjar samsæri og með þessu sé verið að meina mér um að koma samsæriskenningum mínum á framfæri.

Það sem ég ætlaði eingöngu að benda á voru þau sláandi líkindi sem eru á merki (logo-i) aa samtakanna (sepythagoras2.jpgm er þríhyrningur) og þríhyrningi Pýþagórasar í stærðfræðiheiminum. Allir muna eftir Pýþagórasar reglunni a í öðruveldi + b í öðruveldi = c í öðru veldi, ekki satt. Nú jæja Pýþagóras lifði mjög heilbrigðu líferni (meinlætalífi!!!!! Eins og ég hef áður skrifað u.þ.b. seytjánsinnum en þið sjáið það ekki því að seytján sinnum hefur það dottið út!!!!). Hann hvorki drakk né neytti nokkurrar fæðu úr dýraríkinu. Pýþagóras trúði á eilífðareðli mannssálarinnar og að maðurinn ætti að halda sál sinni hreinni. Hann lifði mjög andlegu lífi en sumt af því sem hann tileinkaði sér eru einmitt það sem flokkast undir lífsreglur meðlima aa-samtakanna. Því spyr ég enn og aftur (í seytjánda sinn) gæti verið að Pýþagóras hafi lagt grundvöllinn að stofnun aa-samtakanna og að hann hflottaa-merki.jpgafi verið einskonar Bill eða Bob síns tíma? Meðfylgjandi eru myndir sem staðfesta þann grun minn að um hliðstæður sé að ræða!!! Dæmið sjálf!!!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband